16.4.2010 | 16:11
Jæja, hvar eru stóru sóparnir?
Nú hef ég verið að lesa Rannsóknarskýrsluna. Ljóst er að ábyrgð míns flokks er mikil og það er mjög mikilvægt að grasrótin fái að taka til og sópa í hornin. Slíkar ræstingar eru kannski ekki alltaf sanngjarnar gagnvart einstaklingum en stundum þarf að gera meira en gott þykir.
Ég tel að Þorgerði sé ekki stætt á þingi eða í varaformannsembættinu. Ég skil alveg hvernig málin þróuðust svona og að þetta hafi verið lenska að hátt settir bankamenn fengu margföld árslaun verkamanna á mánuði. Þetta er samt birtingarmynd um siðrof eins og baksýnisspegillinn sýnir og gerir stöðuna ekki skárri. Stjórnmálamaður sem kemur sér í svona aðstöðu getur orðið auðvelt fórnarlamb spillingarafla.
Ég er mjög svekkt yfir örlögum Þorgerðar sem ég hélt að yrðu mikil í flokknum og horfði á þessu skeleggu og sterku konu sem óvefengjanlegt formannsefni. Það hefur samt valdið mér vonbrigðum að hún hafi ekki vikið á síðasta landsfundi. Enn frekar að hún hafi ekki vikið strax við birtingu skýrslunnar. Hvað sem segja má um hvernig þessi ofurlauna og lánafyrirgreiðslur þróuðust hjá manni hennar þá efast enginn um að Þorgerður er og var ekki berfætt og hlekkjuð við eldavélina. Þetta er skörp kona sem átti að vera ljóst hvað maður hennar var að bardúsa og hvaða áhrif þessar ofurtökur hefðu á markaðseftirspurn hlutabréfa. Ef Þorgerður vissi ekkert um hvað var að gerast í fjármálum þeirra hjóna þá hefur hún hvort eð er ekkert að gera í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins.
Þegar þeim sem varð á halda áfram að þvælast fyrir flokknum og þekkja ekki sinn vitjunartíma þarf að sópa þeim út.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.