28.1.2011 | 07:09
Er almenningi ekki orðið verulega órótt hvað varðar skattastefnu Ríkisstjórnarinnar?
Með þrepaskiptu skattkerfi er leitast við að afnema þessa sérhæfingu eða öllu heldur leitast skattayfirvöld til þess að eigna sér sérhæfinguna og þannig taka hvatninguna til sérhæfingar. Með þessari skattastefnu er leitast við að jafna kjör einstaklinganna- falleg hugsun en alveg fáránleg í raunveruleikanum. Með þessu er hið opinbera í raun að ræna þennan skattgreiðanda og sem dæmi munu þau hirða 300 af hverri 400 þúsund króna hækkun á laun umfram 500 þúsund. Hvað mun gerast? Með þessari skattpíningu riðlast samfélagssáttmálinn og þeir sem borga brúsann fara að finnast þeim misboðið og koma sér undan að draga vagninn. Einnig munu þeir forðast alla nýjungar, áhættu og hagvöxtur mun stöðvast. Þeir munu t.d. sérhæfa sig í því að koma sér þar fyrir sem þeir fá mestan hagnað af sérhæfingu sinni þ.e. erlendis eða í neðanjarðarhagkerfinu. Aðrir ósérhæfðir einstaklingar munu ekki sjá sér hag í að sérhæfa sig.
Almennt er viðurkennt um allan heim að háir skattar drepa hagvöxt. Hvað vantar okkur núna? Jú Hagvöxt. Með stefnu sinni eru stjórnvöld að minnka kökuna og stefnan mun kalla á æ stærri sneið af henni ellegar æ meiri samdrátt. Þau ættu að vera að byggja upp stóriðju, atvinnu og gjaldeyrisskapandi verkefni og stækka kökuna og hvetja einstaklinga til sérhæfingar. Sjáum hvernig Taiwan brást við Asíu kreppunni, lækkuðu alla skatta, einfölduðu þá og hlutu hagvöxt á hraða þotu. Þessir stjórnmálamenn sem stjórna í dag skömmuðu Sjálfstæðisflokkinn fyrir að hæla sér að skattalækkunum fyrir örfáum árum og bentu á að skatttekjur hefðu snaraukist og þar með hlyti skattheimtan að hafa aukist. Samt vilja þau ekki fara í þann rann vegna heimskulegrar hugmyndafræði sinnar.Skattastefna hverrar þjóðar á ekki að fara eftir því hvað sitjandi stjórnvöldum finnst sanngjarnt að fólk beri úr bítum. Skattastefnan á að endurspegla hvernig samfélagið fái sem mestar tekjur af skattheimtunni til þess að reka samfélagið. Skattastefnan á því að fara eftir því hvernig skattgreiðendur haga sér en ekki hverjir þeir eru. Skattastefnan á að vera einföld og ódýr í framkvæmd, gegnsæ og umfram allt skapa tekjur og vera þannig að ekki borgi sig að svíkja undan. Skattgreiðandinn á að vera sáttur við samfélag sitt og kröfur sem á hann eru gerðar. Þá borgar hann með brosi á vör og samfélagið græðir.
Athugasemdir
Mikið lifandis skelfing gladdi það mig að lesa þennan pistil hjá þér Adda Þorbjörg.
Ég er búinn að reyna að troða þessum einföldu staðreyndum í hausinn á mörgum, en alltaf fengið bágt fyrir, en það gerist ekkert til, ég eflist allur þegar ég lendi í góðu þvargi.
Duglegt fólk vill og það verður að fá, að njóta afraksturs erfiðis síns, peningar eru aðalhvati þess að fólk sjái ástæðu til þess að leggja eitthvað á sig.
Svo er það með skattanna, vinstri menn átta sig ekki á því, að þensla hjá hinu opinbera er verri en þensla hjá almenningi, því hinu opinbera hættir til að eyða í vitleysu ef fjármagnið eykst á þeim vettvangi, þannig að hinn almenni borgari fær ekki endilega að njóta peninga sinna til fulls.
Aftur á móti ef það er þensla hjá einkaaðilum, þá nýtur hver og einn afraksturs erfiðis síns.
Fyrir mér þýðir þetta einfaldlega réttlæti, en ég veit að vinstri menn sjá það öðrum augum, af einhverjum ástæðum sem ég get ekki skilið.
Jón Ríkharðsson, 29.1.2011 kl. 09:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.