Rangt verður ekki rétt þó það kosti minna

Ég er búin að vera að reyna að sannfæra mig um að skynsamlegt sé að segja já við Icesavesamningnum næstkomandi laugardag. Niðurstaða mín er að ég get ekki fengið það af mér.

Ég tel að stór hluti af ástæðu þess hvernig fór með fjármálakerfið okkar hafi verið sá að við vorum farin að gefa sífellt stærri afslátt af prinsippum. Fjármálakerfin voru orðin svo stór og mikilvæg að við urðum að rýmka, sveigja og horfa framhjá hinum ýmsu reglum og lögum því annars yrðu fyrirtækin bara að fara úr landi. Hversu margir myndu ekki vilja að það hefði orðið raunin? Nú finnst mér sami söngur byrjaður aftur. Stóru fyrirtækin okkar í þjónustu og verslun (sem nota bene eru flest í eigu bankanna) verða að fá trygga umgjörð og velvilja þjóðanna sem við skiptum við og því eigum við enn og aftur að rýmka fyrir þeim og taka á okkur áhættu og aflslátt af prinsippum.

Þessi Ríkisstjórn hefur rekið sig með því að sveigja, beygja og hliðra framhjá lögum og dómum. Tilgangurinn helgi meðalið. Stjórnlagaráðið var dæmt ólöglegt en þá var því bara breytt í nefnd. Hæstaréttardómar eru einskins virði og allt í boði stjórnar sem ætlaði að koma og breyta spilltu kerfi í gagnsæi, réttlæti og prinsipp. Árangurinn er að aldrei hefur verið meiri spilling í ráðningum hins opinbera, aldrei meira af klúðri í efnahagsstjórn, aldrei verið meiri áhersla á að verja fjármálakerfið á kostnað almennings og meira að segja er sjálfsagt talið að menn sitji í stjórnlaganefnd sem ætlar sér að auka virðingu fyrir stjórnarskrá með því að fara framhjá þeirri sem nú er. Ja svei. Tilgangurinn helgar ekki alltaf meðalið. Það er kominn tími til að við förum að ástunda meiri fylgni við reglur og lög.

Ég er hægri manneskja í stjórnmálum. Ég trúi á frelsi einstaklingsins til athafna og á einkarekstur. Ég trúi því engan veginn á að rétt sé að einkaaðilar hirði gróða en áföll séu færð á almenning. Ég tel að tími sé kominn til að við förum að fara eftir prinsippum og lögum. Ef að endurheimtur eiga að vera svona góðar úr þrotabúinu ætti enn minni ástæða að vera til að setja ríkisábyrgð á pakkann. Vissulega getur þetta orðið erfitt í fyrstu en til lengri tíma ætla ég að leggja trú á að rangt verði ekki rétt þó að það kosti minna og að rétt sé rétt. Ég vona að hvað sem verður ofan á í kosningunum þá sé komið að því að við sem þjóð horfum fram á veginn og förum eftir prinsippum svo hér megi fara að byggja upp heilsteypt samfélag sem sé trútt sannfæringu sinni. Ég trúi því að fjármagn rati þar sem gróðatækifæri eru og að þangað sem stjórnvöld taki vel á móti því og veiti stöðugleika og góðar markaðsaðstæður með lágum sköttum og lítilli spillingu. Ég tel því að þessi Ríkisstjórn sé okkur mun hættulegri en Icesave og kosti okkur mun meira hvernig sem kosningarnar fara.

Ég segi því nei við Icesave gjörningnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband