Er þjóðin klofin í herðar niður?

Ég er alveg orðin hundleið á því hvað verið er að blanda sjálfstæðismönnum við útrásarvíkingana og glæpi. Öfgasinnað fólk lítur svo á að allir þeir sem voru sökudólgar við bankahrunið séu sjálfkrafa sjálfstæðismenn og því séu allir sjálfstæðismenn glæpamenn. Hverskonar rökvilla er þetta eiginlega? Davíð er aðal sjálfstæðismaðurinn í augum þessara manna og því er Davíð aðalglæpamaðurinn. Alhæfingin er alger!

Þetta sama fólk virðist líka aldrei hafa verið alið upp eða kennt almennar kurteisisvenjur. Þegar það verður rökþrota eys það bara skítnum yfir alla sem þeir álíta hægrimenn og hóta svo hverjum þeim sem dirfist að vera ósammála. Er ómögulegt að koma umræðunum á hærra plan? Hafa bara hægrisinnaðir íslendingar fengið gott uppeldi á Íslandi? Ég neita að trúa því að ekki séu hlutfallslega fleiri kurteisir og málefnalegir vinstri menn til en sjá má hér í bloggheimum. Flesta er maður hættur að reyna að "commenta" við enda má sjá eintóma já bræður skrifa á síður stórs hluta þeirra. Aðrir hafa gefist upp á skítkastinu og óhróðrinum. Er bloggið ekki til að skiptast á skoðunum? Er virkilega skemmtilegra að setja tappa í eyrun og lúður á munninn og öskra hærra en allir hinir?

Vissulega voru framin hér afglöp og fjármálakerfið hrundi en fjármálakerfi heimsins er allt fallvalt þessa dagana og ekki sér maður fólk flykkjast um að henda út seðlabankastjórum erlendis eða kenna ákveðnum flokkum sérstaklega um. Stjórnvöld hvar svo sem þau eru á pólítíska litrófinu eru í vandræðum um allan heim því að alþjóðlegar fjármálareglur héldu ekki. Stjórnvöld á hverjum stað verða að axla ábyrgð og auðvitað eiga þau að biðjast afsökunar og menn að segja af sér. En aðal sökin á heima þar sem hún varð til þ.e. hjá þeim sem báru raunverulegu ábyrgðina; bankamönnunum.

Látið er eins og síðustu 18 ár hafi verið skelfileg undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í stað þess að horfast í augu við það að þau hafa verið ein hagsælustu ár Íslandssögunnar. Það voru bara allra síðustu árin sem báru okkur af leið og því þarf bara að taka stefnuna aftur. Ofan á allt sátu Sjálfstæðismenn aldrei einráðir og fengu dyggan stuðning til jafnt góðra sem slæmra verka.

Mér sýnist að endurnýjunin ætli að verða töluverð í öllum flokkum og að grasræturnar séu að vakna og átta sig á að þær hafi líka hlutverk þ.e. að veita aðhald í flokkunum og leggja línurnar. Nú koma afspyrnulélegir rökhyggjumenn um allar trissur og ákveða að einn flokkur skuli einn óstjórntækur og þurfi að hvíla sig. Þvert á móti hefur aldrei verið meiri þörf fyrir að dusta rykið af stefnu Sjálfstæðisflokksins og pússa lögmál hans þar til þau glansa og hér kemur lykilatriðið: Fara eftir þeim.

Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert frekar að fara frá en aðrir flokkar. Þeir eru allir afdankaðir og skorpnir í hornunum og í bráðri þörf fyrir endurlífgun. Allir flokkarnir hafa gott af því að skúra út og þrífa alveg út í hornin. Það þarf að virkja grasrætur flokkanna og endurnýja og dusta rykið af stefnunum sem gleymdust í græðginni. Smá brotthvarf til mannlegra og rammíslenskra manngilda.

Stefna Sjálfstæðisflokksins beið ekki skipbrot heldur framkvæmdin. Í stað dreifðrar eignaraðildar og vandaðrar reglugerða og laga lentu þeir á endanum hjá of fáum og svo hlaupið á eftir þeim og reglugerðir voru sniðnar eftirá og af vanefndum í kringum óskir eigenda.  Allir flokkar misstu sig svolítið og fengu glýgju í augun að ljóma peninganna sem virtust flæða um allt. Regluverkið var afleitt um allan heim og stjórnvöld hér voru ekki ein um að missa tökin á fjármálageiranum.

Hér varð hrun og við hrun fara ólíkir kraftar af stað og leita að nýju jafnvægi. Með þessari óreiðu skapast tækifæri til breytinga og endurnýjunar. Endurskoðum stjórnsýsluna, vald þingsins, minnkum ráðherraræði og aukum vægi útstrikana og vöndum til verks og dustum rykið af hnjánum með nýja áhöfn og skýrari markmið. Horfum út úr vandanum en sökkvum ekki í sama neikvæða gírinn og sortann og svo algengt er með öfgamenn til vinstri. Höldum í vonina, skoðum tækifærin og spýtum í lófana. Jákvætt og hugað fólk kemst lengra og fyrr að tækifærum. Missum okkur ekki í kreppukrump.


Versta gerð einkarekstrar?

 

Þetta hefur farið í taugarnar á mér í mörg ár. Skynhelgin er ótrúleg þegar fólk er að tala um að ekki megi fara í átt að einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Vegna þessarar afneitunar á því sem hefur viðgengist í heilbrigðismálum hér hingað til hefur hér þrifist versta gerð einkarekstrar í tugi ára í skugga þeirra firru að ekki megi leifa einkarekstur. Hér hefur þrifist reglugerðar og eftirlitslaus rekstur á mörgum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og að mínu mati oft tvíborgað fyrir hana.

Komum einkarekstrinum upp á yfirborðið og setjum á hann bönd og reglur. Læknar hafa margir yfir að ráða fjölda rúma og láta sem þeir eigi spítalana sem þeir vinna á og blanda saman hagsmunum sínum og þjóðfélagsins. Þeir starfa á eigin vegum á sama tíima og þeir eiga að vera í launaðri vinnu og jafnvel fellur allur kostnaður á stofnanirnar.

Einkarekstur getur bæði verið langdýrasta form heilbrigðisþjónustu og það ódýrasta. Niðurstaðan fer eftir því hvort sett séu um hann áreiðanleg og vönduð reglugerð og eftirlit. Aðalatriðið er að grunnþjónustan sé sú sama fyrir alla á sama verði og niðurgreidd af ríkinu. Engu á að skipta hver framkvæmir hana. Sjá t.d. þau lönd sem gera þetta einna best s.s. Kanada og Taiwan.

Það hefur aldrei mátt taka á þessum málum í tíð framsóknarmanna í Heilbrigðisráðuneytinu.

 Ekki voru lætin minni þegar Guðlaugur Þór ætlaði að fara að taka til

Tek það fram að ég hef ekki hugmynd um að þetta sé raunin á St. Jóseps.


Hvað er eiginlega að gerast hérna?

Mér finnst eins og ég sé stödd í farsa, sem býður upp á of mikið þannig að maður á orðið erfitt með að hlæja en brosir út í annað mitt á milli hláturs og gráturs. Hláturs því þetta er óneitanlega stundum svolítið fyndið en gráturs af því maður er orðinn þreyttur og langar heim í skjól og ró. Farsinn væri ágætur ef ekki væri að miðinn hefði kostað allt of mikið og væri að setja áhorfendur á hausinn.

Nýja ríkisstjórnin segist hafa þurft að taka við því fyrri stjórn hefði í raun verið umboðslaus með sinn mesta meirihluta á þingi frá upphafi. Þessi nýja minnihlutastjórn þykist aftur á móti hafa nægt umboð á sínum örfáu dögum til að „taka til" og „hreinsa út", taka út fólk sem hún telur tilheyra röngum flokki og setja sitt fólk inn í staðinn, minnka sjálfstæði Seðlabanka  og breyta stjórnarskránni til langframa.

Að fylgjast með þessari nýju stjórn er eins og hlusta á hóp barna með sameiginlegan og mjög takmarkaðan sjóð í nammibúð. Ágætur vinur minn líkti þessu vð að á rúmum 60 dögum ætli þau ekki í kringum jörðina heldur væru að fá útrás fyrir breytingar sem þeim hefði langað til að gera í 18 ár, listinn sem þau krossuðu við væri langur og því miður í engum takti við eðlilega forgangsröð við  þessi hörmulegu tímamót í sögu þjóðarinnar.

Það eina sem komið hefur upp úr stórninni sem báðir hlutar hennar virðast sammála um er að þeir vilja Davíð burt. Nú ætla ég ekkert að leggja mat á það hvort Davíð hafið brotið af sér eða ekki, hvort hann hafi átt að leggja á bindiskyldu etc. Hvað mig varðar hefði hann átt að segja af sér í haust til að koma í veg fyrir möguleg stjórnarslit og vegna þess að þjóðlífið var gegnsýrt af reiði og Seðlabankinn var rúinn trausti almennings.

Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að beita ákveðnum löglegum aðferðum til að taka niður þessa bankastjórn og bæta úr því sem aflaga fór þ.e. FME og SÍ virkuðu ekki saman sem skyldi og þetta fyrirkomulag hefur því  reynst gallað og ekki þjónað hlutverki sínu til að hindra áföll í fjármálakerfinu. En nei, það varð að setja þetta niður á lægra plan og fullnægja skríl sem öskraði af reiði og beindi henni að einum embættismanni öðrum fremur. Reiðin beindist líka að einum flokki öðrum fremur þ.e. að Sjálfstæðisflokknum. Nú ætla ég ekkert að gera lítið úr afglöpum hans en finnst forundarlegt að þeir flokkar sem unnu með honum og höfðu stórn á FME og bankakerfinu séu skynheilagir og taki þátt í „hreinsununum". Mega sjálfstæðismenn fara að búast við því að þurfa að ganga með armmerki? Verða galdrabrennur á Austurvelli? Allskonar dónalegt og æst fólk virðist halda fínt að lýsa fyrirlitningu á alla sem aðhyllast einhverja hægri stefnu og að það þurfi ekki að sýna kurteisi og málefnalegan flutning á bloggsíðum eða annarstaðar.

Svo við förum aftur að Seðlabankanum. þá virðist alveg gleymast í allri umræðunni að Davíð Oddson hefur réttindi sem opinber starfsmaður og fyrir þeim réttindum barðist Ögmundur hatrammlega á sínum tíma m.s. við Davíð. Svo þegar Ögmundi og félögum finnst einhver leiðinlegur þá telur hann sig ekki þurfa að beita þeim reglum né virða réttindi viðkomandi.

Davíð Oddson fór ekki úr stóli fyrir Sjálfstæðisflokkinn og því væri forundarlegt í ljósi þess hver hann er, ef hann færi frá núna þegar hann hefur tækifæri til að sýna Ögmundi og félögum hvernig það er að sitja hinumegin við borðið.

Ég er nokkuð viss um að Davíð hefur verið farið að hundleiðast í Seðlabankanum þar til nú. Nú er gaman hjá honum og hann væri ekki hann sjálfur ef hann stigi auðmjúkur niður við eina bón frá heilagri Jóhönnu. Stjórnin er því að skemmta skrattanum (sínum).

Þá finnst mér merkilegt, eins og fyrr segir, að stjórn, meira að segja minnihlutastjórn til þriggja mánaða , ætli að framkvæma gerbreytingu á sjálfstæði Seðlabankans. Sjálfstæði Seðlabankans var sett til þess að tryggja að móðgaðir pólítikusar í populisma gætu ekki haft áhrif á starfsemi hans.

Síðasta ríkisstjórn hefði getað komið þeim þremur frá auðveldlega með því að fara eftur hugmynd Geirs og sameina stofnanirnar FME og SÍ og hefðu getað gert það að veruleika um áramót að tryggja nýja sjálfstæða stofnun með einum seðlabankastjóra að eigin vali. En nei, það var ekki nóg fyrir Samfylkinguna, þar snerist þetta um lýðskrum og að geta "rekið" Davíð og auðmýkt hann. Hvað kostar þetta lýðskrum þjóðina á endanum?

Hvernig væri að hætta þessum ofsóknum og mannabreytingum og fara frekar að vinna að málefnalegum lausnum? Látið næstu ríkistjórn, sem væntanlega verður með skýrt umboð, um allar stórar breytingar í stjórnsýslunni. Leyfið flokkunum kynna sínar væntanlegu breytingar svo fólkið geti kosið um þær!

Hvað ættuð þið í ríkisstjórninni að að vera að gera núna? Jú það sem þið gætuð gert núna og það sem fólkið kallar hæst á er ýmislegt sem maður skyldi ætla að vinstri flokkar hefðu áhuga á. Þið gætuð t.d. breytt gjaldþrotalögum þannig að þegar einstaklingur og banki hafa gert samning um lán þar sem einstaklingurinn leggur eign undir í veði og bankinn samþykkir veðið þá sé kominn bindandi samningur og ekki sé þá hægt að ganga að einstaklingnum umfram það veð.

Síðustu árin hafa bankarnir næstum elt einstaklinga til að bjóða þeim lán. Eiga fjármálastofnanir ekki líka að hafa ábyrgð svo þær þurfi að vanda sig er þær samþykkja veð? Hvernig má það vera að fjármálastofnanir hafi ávallt bæði belti og axlarbönd og jafnvel reiðhjólateygjur í öllum samningum en viðskiptavinurinn tekur alla áhættu af umhverfi, áföllum og öðru sem komið getur fyrir og gerbreytt grundvelli fyrir fjármálalegum útreikningum. Ég vil benda fólki á nýstofnum hagsmunarsamtök til verndar heimilunum (http://www.heimilin.is/).

Við ríkisstjórnina hef ég ekkert að segja. Ég held henni sé ekki viðbjargandi og tek bara undir orð Geirs Haarde; „Guð blessi Íslensku þjóðina".


Var grasrótin í flokkunum steinrunnin?

Afhverju er svona mikil reiði meðal almennings sem ýmist beinist gegn Sjálfstæðisflokknum eða flokkakerfinu yfirhöfuð? Ég held að líkt og stjórnmálamennirnir hafi almenningur (sem á jú að vera grasrótin í flokkunum) vaknað upp við sama vonda drauminn og atvinnustjórnmálamennirnir þ.e. að allir eru búnir að vera of værukærir í góðærinu og grasrótin hefur ekki verið nógu vinnusöm og gagnrýnin á forystusveitir sínar.

Þannig hefur skort nauðsynlegt aðhald og valdajafnvægið brenglast. Svona verður ráðherravaldið sterkara og forystumennirnir spila frítt spil. Með þessu er ég ekki að segja að fólk hafi hér í stórum stíl misnotað vald sitt en auðvitað er erfitt að vita hvert er verið að fara ef engin stefnumótun og markmiðsetning er lögð fram eða fylgt eftir af meðlimum sem eiga að veita nauðsynlegt aðhald og bakland. Því er ég að segja að við, almenningur eigum sök að máli.

Ef eitthvað gott kemur úr þessari kreppu er það nauðsynleg hreinsun, endurskoðun og efling á pólítískum áhuga og vinnu innan flokkanna. Allra flokkanna. Það er nefnilega mjög mikilvægt að einstaklingar starfi með þeim flokkum sem þeim finnst þeir eiga flest sameiginlegt með hvað hugsjónir og markmið varðar. Flokkarnir eru jú fólkið og ég er mjög ósammála því að við þurfum að leggja niður flokkakerfið.

Hvernig í ósköpunum ætlar hver og einn að finna þá einstaklinga sem þeir eiga mest sameiginlegt hvað skoðanir varðar á öllum sviðum úr fjölda frambjóðenda? Jú kannski er auðvelt að finna frambjóðanda sem þú ert sammála í veigamiklu atriði en hvað gerir hann varðandi önnur mál þegar hann er kominn í embætti? Hann gæti komið mjög óskemmtilega á óvart.

Jú flokkakerfið er til að flokka saman það fólk sem hefur sem líkastar skoðanir og hugsjónir. Auðvitað passar enginn flokkur 100% en því er svo mikilvægt að vinna innan flokkanna til að ýta hugmyndum sem sínum  og skoðunum áfram. Því er svo að ef eitthvað fær brautargengi sem einstaklingnum líkar ekki er það vegna þess að aðrir einstaklingar sem hafa aðra skoðun eru annað hvort fleiri eða duglegri að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Nú eru allir vaknaðir :).  Vonandi verður það til þess að starfsemi og meðvitund verði betri í flokkunum. Ég held alla vega og trúi að í Sjálfstæðisflokknum verði mikil gerjun og endurskoðun og hann komi sterkari fram á eftir. Við munum ekki gleyma að hrunið varð á okkar vakt og setja markmiðið hátt varðandi vandaðri vinnubrögð þegar kemur að framkvæmdum þar sem notast á við frábærar hugsjónir Sjálfstæðisflokksins.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband