8.4.2009 | 21:30
Hvar er Bjarni?
Já ég er svolítið svekkt yfir því að Sjálfstæðisflokkurinnn hafi ekki áræði til að taka af skarið og ákveða að taka upp aðra mynt. Ég lýsi eftir stefnu og markmiðum Sjálfstæðisflokksins, flokksins míns. Fyrst hann ætlar ekki að sækjast eftir inngöngu í ESB hvað ætlar hann þá að gera í staðinn? Skýrt og einfalt svar takk! Ekki það að ég sé óánægð með að niðurstaða landsfundarinns hafi orðið sá að ekki væru forsendur til að sækja um aðild. Mér finnst hins vegar alveg ljóst að ástandið er að drepa heimilin og fyrirtækin núna en ekki í framtíðinni. Verðtryggingin, stýrivextirnir og óðaverðbólgan er allt til komið til þess að halda lífi í krónunni en sliga og skuldsetja heimilin fram að þessu. Nú er svo komið að krónan er dauð! Hún er ónýtt vörumerki! Verið er að reyna að blása lífi í sex mánaða gamalt lík! Það verður að teljast ólíklegt að það lifni við úr þessu.
Nú vil ég sjá að flokkurinn taki þá hugdjörfu ákvörðun að fara óhefðbundnar leiðir og hvetja þjóðina til að notfæra sér það að hún er agnarsmá og með mikla aðlögunarhæfni og lýsa því yfir að við ætlum að veita krónunni hinstu hvíld og grafa hana með verðtryggingunni, stýrivöxtunum, gjaldeyrishöftunum og óðaverðbólgunni. Förum aðrar leiðir út úr kreppunni en þær hefðbundnu! Við skulum þora að fara eftir kenningum á blaði þó að enginn annar hafi gert það.
Tökum undir með Framsókn og lýsum yfir afdráttarlausum vilja til að fara í 20% niðurfellingu skulda heimila og minni fyrirtækja og tökum upp dollar eða þá myntráð a la Loftur Altice ekki seinna en strax. Hvað svo sem verður endanlegur gjaldmiðill í framtíðinni.
Mér hefur skilist að vandamálið sé þessi krónubréf. Eigum við að láta krónubréfin drepa allt viðskiptalíf og gera heimilin gjaldþrota? Kostar það ekki meira en þessar 400 milljarða? Ef vandamálið er krónubréfin finnum þá lausn til að koma því vandamáli frá hvort sem það er að setja gjaldeyrishöftin bara á þau eða finnum ráð til að festa þau eða semja þau frá. Einblínum á vandamálið í hnotskurn sem er Það sem allar aðrar ákvarðanir stranda á: Krónubréfin. Leysum málið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.