26.2.2009 | 19:29
Er þjóðin klofin í herðar niður?
Ég er alveg orðin hundleið á því hvað verið er að blanda sjálfstæðismönnum við útrásarvíkingana og glæpi. Öfgasinnað fólk lítur svo á að allir þeir sem voru sökudólgar við bankahrunið séu sjálfkrafa sjálfstæðismenn og því séu allir sjálfstæðismenn glæpamenn. Hverskonar rökvilla er þetta eiginlega? Davíð er aðal sjálfstæðismaðurinn í augum þessara manna og því er Davíð aðalglæpamaðurinn. Alhæfingin er alger!
Þetta sama fólk virðist líka aldrei hafa verið alið upp eða kennt almennar kurteisisvenjur. Þegar það verður rökþrota eys það bara skítnum yfir alla sem þeir álíta hægrimenn og hóta svo hverjum þeim sem dirfist að vera ósammála. Er ómögulegt að koma umræðunum á hærra plan? Hafa bara hægrisinnaðir íslendingar fengið gott uppeldi á Íslandi? Ég neita að trúa því að ekki séu hlutfallslega fleiri kurteisir og málefnalegir vinstri menn til en sjá má hér í bloggheimum. Flesta er maður hættur að reyna að "commenta" við enda má sjá eintóma já bræður skrifa á síður stórs hluta þeirra. Aðrir hafa gefist upp á skítkastinu og óhróðrinum. Er bloggið ekki til að skiptast á skoðunum? Er virkilega skemmtilegra að setja tappa í eyrun og lúður á munninn og öskra hærra en allir hinir?
Vissulega voru framin hér afglöp og fjármálakerfið hrundi en fjármálakerfi heimsins er allt fallvalt þessa dagana og ekki sér maður fólk flykkjast um að henda út seðlabankastjórum erlendis eða kenna ákveðnum flokkum sérstaklega um. Stjórnvöld hvar svo sem þau eru á pólítíska litrófinu eru í vandræðum um allan heim því að alþjóðlegar fjármálareglur héldu ekki. Stjórnvöld á hverjum stað verða að axla ábyrgð og auðvitað eiga þau að biðjast afsökunar og menn að segja af sér. En aðal sökin á heima þar sem hún varð til þ.e. hjá þeim sem báru raunverulegu ábyrgðina; bankamönnunum.
Látið er eins og síðustu 18 ár hafi verið skelfileg undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í stað þess að horfast í augu við það að þau hafa verið ein hagsælustu ár Íslandssögunnar. Það voru bara allra síðustu árin sem báru okkur af leið og því þarf bara að taka stefnuna aftur. Ofan á allt sátu Sjálfstæðismenn aldrei einráðir og fengu dyggan stuðning til jafnt góðra sem slæmra verka.
Mér sýnist að endurnýjunin ætli að verða töluverð í öllum flokkum og að grasræturnar séu að vakna og átta sig á að þær hafi líka hlutverk þ.e. að veita aðhald í flokkunum og leggja línurnar. Nú koma afspyrnulélegir rökhyggjumenn um allar trissur og ákveða að einn flokkur skuli einn óstjórntækur og þurfi að hvíla sig. Þvert á móti hefur aldrei verið meiri þörf fyrir að dusta rykið af stefnu Sjálfstæðisflokksins og pússa lögmál hans þar til þau glansa og hér kemur lykilatriðið: Fara eftir þeim.
Sjálfstæðisflokkurinn á ekkert frekar að fara frá en aðrir flokkar. Þeir eru allir afdankaðir og skorpnir í hornunum og í bráðri þörf fyrir endurlífgun. Allir flokkarnir hafa gott af því að skúra út og þrífa alveg út í hornin. Það þarf að virkja grasrætur flokkanna og endurnýja og dusta rykið af stefnunum sem gleymdust í græðginni. Smá brotthvarf til mannlegra og rammíslenskra manngilda.
Stefna Sjálfstæðisflokksins beið ekki skipbrot heldur framkvæmdin. Í stað dreifðrar eignaraðildar og vandaðrar reglugerða og laga lentu þeir á endanum hjá of fáum og svo hlaupið á eftir þeim og reglugerðir voru sniðnar eftirá og af vanefndum í kringum óskir eigenda. Allir flokkar misstu sig svolítið og fengu glýgju í augun að ljóma peninganna sem virtust flæða um allt. Regluverkið var afleitt um allan heim og stjórnvöld hér voru ekki ein um að missa tökin á fjármálageiranum.
Hér varð hrun og við hrun fara ólíkir kraftar af stað og leita að nýju jafnvægi. Með þessari óreiðu skapast tækifæri til breytinga og endurnýjunar. Endurskoðum stjórnsýsluna, vald þingsins, minnkum ráðherraræði og aukum vægi útstrikana og vöndum til verks og dustum rykið af hnjánum með nýja áhöfn og skýrari markmið. Horfum út úr vandanum en sökkvum ekki í sama neikvæða gírinn og sortann og svo algengt er með öfgamenn til vinstri. Höldum í vonina, skoðum tækifærin og spýtum í lófana. Jákvætt og hugað fólk kemst lengra og fyrr að tækifærum. Missum okkur ekki í kreppukrump.
Athugasemdir
Og nú þegar skuldir okkar hafa aukist um milljarða, sem þjóðin þarf að borga, á engin að taka ábyrgð? Þetta gerðist á þeirra vakt, svo þeim ber að taka ábyrgð á því. Mér er slétt sama hver flokkurinn er, það er löngu tímabært að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir því að með stjórn heillar þjóðar hvílir gríðarleg ábyrgð. Þetta er engin sjálfboðavinna.
Davíð Löve., 26.2.2009 kl. 20:11
Sammála þér. Þarna kom ég þér á óvart ekki satt? Mér sýnist nú að verið sé að þvinga ábyrgðinni á forystuna jafnt af almenningi sem flokksmönnum. Ég sagði þetta einmitt hér að ofan að auðvitað hefðu menn átt að segja af sér og biðjast afsökunar. Hér átti að sýna auðmýkt og játa afglöp en aldrei glæp. Ég er eingöngu að segja að það er rangt að Sjálfstæðisflokkurinn einn beri ábyrgð og að þjóðin fari að horfa á lausnir en ekki refsingar og dómhörku. Okkar allra vegna annars verður enginn friður og engin framtíð.
Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 26.2.2009 kl. 20:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.