8.2.2009 | 07:16
Hvað er eiginlega að gerast hérna?
Mér finnst eins og ég sé stödd í farsa, sem býður upp á of mikið þannig að maður á orðið erfitt með að hlæja en brosir út í annað mitt á milli hláturs og gráturs. Hláturs því þetta er óneitanlega stundum svolítið fyndið en gráturs af því maður er orðinn þreyttur og langar heim í skjól og ró. Farsinn væri ágætur ef ekki væri að miðinn hefði kostað allt of mikið og væri að setja áhorfendur á hausinn.
Nýja ríkisstjórnin segist hafa þurft að taka við því fyrri stjórn hefði í raun verið umboðslaus með sinn mesta meirihluta á þingi frá upphafi. Þessi nýja minnihlutastjórn þykist aftur á móti hafa nægt umboð á sínum örfáu dögum til að taka til" og hreinsa út", taka út fólk sem hún telur tilheyra röngum flokki og setja sitt fólk inn í staðinn, minnka sjálfstæði Seðlabanka og breyta stjórnarskránni til langframa.
Að fylgjast með þessari nýju stjórn er eins og hlusta á hóp barna með sameiginlegan og mjög takmarkaðan sjóð í nammibúð. Ágætur vinur minn líkti þessu vð að á rúmum 60 dögum ætli þau ekki í kringum jörðina heldur væru að fá útrás fyrir breytingar sem þeim hefði langað til að gera í 18 ár, listinn sem þau krossuðu við væri langur og því miður í engum takti við eðlilega forgangsröð við þessi hörmulegu tímamót í sögu þjóðarinnar.
Það eina sem komið hefur upp úr stórninni sem báðir hlutar hennar virðast sammála um er að þeir vilja Davíð burt. Nú ætla ég ekkert að leggja mat á það hvort Davíð hafið brotið af sér eða ekki, hvort hann hafi átt að leggja á bindiskyldu etc. Hvað mig varðar hefði hann átt að segja af sér í haust til að koma í veg fyrir möguleg stjórnarslit og vegna þess að þjóðlífið var gegnsýrt af reiði og Seðlabankinn var rúinn trausti almennings.
Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að beita ákveðnum löglegum aðferðum til að taka niður þessa bankastjórn og bæta úr því sem aflaga fór þ.e. FME og SÍ virkuðu ekki saman sem skyldi og þetta fyrirkomulag hefur því reynst gallað og ekki þjónað hlutverki sínu til að hindra áföll í fjármálakerfinu. En nei, það varð að setja þetta niður á lægra plan og fullnægja skríl sem öskraði af reiði og beindi henni að einum embættismanni öðrum fremur. Reiðin beindist líka að einum flokki öðrum fremur þ.e. að Sjálfstæðisflokknum. Nú ætla ég ekkert að gera lítið úr afglöpum hans en finnst forundarlegt að þeir flokkar sem unnu með honum og höfðu stórn á FME og bankakerfinu séu skynheilagir og taki þátt í hreinsununum". Mega sjálfstæðismenn fara að búast við því að þurfa að ganga með armmerki? Verða galdrabrennur á Austurvelli? Allskonar dónalegt og æst fólk virðist halda fínt að lýsa fyrirlitningu á alla sem aðhyllast einhverja hægri stefnu og að það þurfi ekki að sýna kurteisi og málefnalegan flutning á bloggsíðum eða annarstaðar.
Svo við förum aftur að Seðlabankanum. þá virðist alveg gleymast í allri umræðunni að Davíð Oddson hefur réttindi sem opinber starfsmaður og fyrir þeim réttindum barðist Ögmundur hatrammlega á sínum tíma m.s. við Davíð. Svo þegar Ögmundi og félögum finnst einhver leiðinlegur þá telur hann sig ekki þurfa að beita þeim reglum né virða réttindi viðkomandi.
Davíð Oddson fór ekki úr stóli fyrir Sjálfstæðisflokkinn og því væri forundarlegt í ljósi þess hver hann er, ef hann færi frá núna þegar hann hefur tækifæri til að sýna Ögmundi og félögum hvernig það er að sitja hinumegin við borðið.
Ég er nokkuð viss um að Davíð hefur verið farið að hundleiðast í Seðlabankanum þar til nú. Nú er gaman hjá honum og hann væri ekki hann sjálfur ef hann stigi auðmjúkur niður við eina bón frá heilagri Jóhönnu. Stjórnin er því að skemmta skrattanum (sínum).
Þá finnst mér merkilegt, eins og fyrr segir, að stjórn, meira að segja minnihlutastjórn til þriggja mánaða , ætli að framkvæma gerbreytingu á sjálfstæði Seðlabankans. Sjálfstæði Seðlabankans var sett til þess að tryggja að móðgaðir pólítikusar í populisma gætu ekki haft áhrif á starfsemi hans.
Síðasta ríkisstjórn hefði getað komið þeim þremur frá auðveldlega með því að fara eftur hugmynd Geirs og sameina stofnanirnar FME og SÍ og hefðu getað gert það að veruleika um áramót að tryggja nýja sjálfstæða stofnun með einum seðlabankastjóra að eigin vali. En nei, það var ekki nóg fyrir Samfylkinguna, þar snerist þetta um lýðskrum og að geta "rekið" Davíð og auðmýkt hann. Hvað kostar þetta lýðskrum þjóðina á endanum?
Hvernig væri að hætta þessum ofsóknum og mannabreytingum og fara frekar að vinna að málefnalegum lausnum? Látið næstu ríkistjórn, sem væntanlega verður með skýrt umboð, um allar stórar breytingar í stjórnsýslunni. Leyfið flokkunum kynna sínar væntanlegu breytingar svo fólkið geti kosið um þær!
Hvað ættuð þið í ríkisstjórninni að að vera að gera núna? Jú það sem þið gætuð gert núna og það sem fólkið kallar hæst á er ýmislegt sem maður skyldi ætla að vinstri flokkar hefðu áhuga á. Þið gætuð t.d. breytt gjaldþrotalögum þannig að þegar einstaklingur og banki hafa gert samning um lán þar sem einstaklingurinn leggur eign undir í veði og bankinn samþykkir veðið þá sé kominn bindandi samningur og ekki sé þá hægt að ganga að einstaklingnum umfram það veð.
Síðustu árin hafa bankarnir næstum elt einstaklinga til að bjóða þeim lán. Eiga fjármálastofnanir ekki líka að hafa ábyrgð svo þær þurfi að vanda sig er þær samþykkja veð? Hvernig má það vera að fjármálastofnanir hafi ávallt bæði belti og axlarbönd og jafnvel reiðhjólateygjur í öllum samningum en viðskiptavinurinn tekur alla áhættu af umhverfi, áföllum og öðru sem komið getur fyrir og gerbreytt grundvelli fyrir fjármálalegum útreikningum. Ég vil benda fólki á nýstofnum hagsmunarsamtök til verndar heimilunum (http://www.heimilin.is/).
Við ríkisstjórnina hef ég ekkert að segja. Ég held henni sé ekki viðbjargandi og tek bara undir orð Geirs Haarde; Guð blessi Íslensku þjóðina".
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.