Var grasrótin í flokkunum steinrunnin?

Afhverju er svona mikil reiði meðal almennings sem ýmist beinist gegn Sjálfstæðisflokknum eða flokkakerfinu yfirhöfuð? Ég held að líkt og stjórnmálamennirnir hafi almenningur (sem á jú að vera grasrótin í flokkunum) vaknað upp við sama vonda drauminn og atvinnustjórnmálamennirnir þ.e. að allir eru búnir að vera of værukærir í góðærinu og grasrótin hefur ekki verið nógu vinnusöm og gagnrýnin á forystusveitir sínar.

Þannig hefur skort nauðsynlegt aðhald og valdajafnvægið brenglast. Svona verður ráðherravaldið sterkara og forystumennirnir spila frítt spil. Með þessu er ég ekki að segja að fólk hafi hér í stórum stíl misnotað vald sitt en auðvitað er erfitt að vita hvert er verið að fara ef engin stefnumótun og markmiðsetning er lögð fram eða fylgt eftir af meðlimum sem eiga að veita nauðsynlegt aðhald og bakland. Því er ég að segja að við, almenningur eigum sök að máli.

Ef eitthvað gott kemur úr þessari kreppu er það nauðsynleg hreinsun, endurskoðun og efling á pólítískum áhuga og vinnu innan flokkanna. Allra flokkanna. Það er nefnilega mjög mikilvægt að einstaklingar starfi með þeim flokkum sem þeim finnst þeir eiga flest sameiginlegt með hvað hugsjónir og markmið varðar. Flokkarnir eru jú fólkið og ég er mjög ósammála því að við þurfum að leggja niður flokkakerfið.

Hvernig í ósköpunum ætlar hver og einn að finna þá einstaklinga sem þeir eiga mest sameiginlegt hvað skoðanir varðar á öllum sviðum úr fjölda frambjóðenda? Jú kannski er auðvelt að finna frambjóðanda sem þú ert sammála í veigamiklu atriði en hvað gerir hann varðandi önnur mál þegar hann er kominn í embætti? Hann gæti komið mjög óskemmtilega á óvart.

Jú flokkakerfið er til að flokka saman það fólk sem hefur sem líkastar skoðanir og hugsjónir. Auðvitað passar enginn flokkur 100% en því er svo mikilvægt að vinna innan flokkanna til að ýta hugmyndum sem sínum  og skoðunum áfram. Því er svo að ef eitthvað fær brautargengi sem einstaklingnum líkar ekki er það vegna þess að aðrir einstaklingar sem hafa aðra skoðun eru annað hvort fleiri eða duglegri að koma hugmyndum sínum á framfæri.

Nú eru allir vaknaðir :).  Vonandi verður það til þess að starfsemi og meðvitund verði betri í flokkunum. Ég held alla vega og trúi að í Sjálfstæðisflokknum verði mikil gerjun og endurskoðun og hann komi sterkari fram á eftir. Við munum ekki gleyma að hrunið varð á okkar vakt og setja markmiðið hátt varðandi vandaðri vinnubrögð þegar kemur að framkvæmdum þar sem notast á við frábærar hugsjónir Sjálfstæðisflokksins.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband