5.2.2010 | 11:08
Það er gefið rangt!
Undirrituð skrifaði grein fyrir mjög stuttu síðan eða aðeins í fyrradag. Greinin var um Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og ástandið sem nú skapast þar. Eigi að síður er full þörf á að ræða þetta ástand enn frekar því að miklir hagsmunir svæðisins eru í húfi. Því meira sem málið er skoðað verður ljósara að hér er um hreina aðför að íbúum að ræða. Suðurnesin hafa alltaf búið við það að teljast til höfuðborgarsvæðisins þegar það hentar en landsbyggðarinnar þegar eitthvað á að gera fyrir þéttbýlissvæði. Skoðum málið:
Heilbrigðisskipulag svæðisins byggir á kolröngum forsendum og því er mjög vitlaust gefið.
Suðurnesin eru í sameiginlegu Heilbrigðisumdæmi með Suðurlandi þannig að umdæmið nær alla leið til Hornafjarðar. Það er í raun alveg forundarlegt að þetta hafi orðið niðurstaðan þar sem bæjarfélögin á Suðurnesjum eru þannig staðsett að það þarf að fara um höfuðborgarsvæðið til þess að komast til þeirra. Þetta virðist ekki vera mikið mál í augum þeirra sem ekki eru vel að sér í heilbrigðismálum en það er það samt því að með þessu fyrirkomulagi er Sjúkrahúsið á Selfossi gert að aðal umdæmissjúkrahúsinu en Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er aukasjúkrahús. Auka sjúkrahús hafa minni lagalegar skyldur til þjónustu og því frekar hægt að fjársvelta þær.
Suðurnesin þurfa því nauðsynlega að vera alveg sér heilbrigðisumdæmi og stofnunin að verða aðal stofnunin enda þjónar hún 22 þúsund íbúum allra bæjarfélaganna á Suðurnesjum og þeirra sem starfa þar. Þó að stofnunin sé skilgreind sem aukasjúkrahús þarf hún að starfa eins og aðalumdæmissjúkrahús því ekki sækja Suðurnesjamenn þjónustu til Selfoss.
Sömuleiðis er algerlega nauðsynlegt fyrir Sjúkrahúsið á Selfossi að vera aðalsjúkrahúsið á sínu svæði enda umdæmið gríðarlega stórt og víðfeðmt. Bæði þessi sjúkrahús þyrftu því að fá fjármagn sem aðalstofnanir á sínu svæði. Mjög nauðsynlegt er að endurskipuleggja hvernig fjármagn er sett á heilbrigðisumdæmi í landinu enda algerlega óboðlegt að stjórnir þeirra viti aldrei hvernig úthlutað verði og séu sífellt að fá yfir sig nýja Heilbrigðisráðherra (misvitra eins og síðustu misserin sanna)sem umsnúa rekstrargrundvelli stofnananna með reglulegu millibili. Sömuleiðis hafa aðrir áhrifavaldar áhrif á fjármagnið t.d. hvernig skipast í heilbrigðisnefnd þingsins og í fjárlaganefnd. Ætla mætti að góðu fagfólki hins opinbera ætti ekki að verða skotaskuld úr verki að skapa reiknigrunn sem byggir á fjölda íbúa á þjónustusvæði hverrar stofnunar og svo fjarlægðum íbúa til að sækja þjónustuna. Þetta yrði þá fasti sem hægt væri að gera ráð fyrir í fjárlögum í stað þess að sífellt sé byggt á geðþótta og landsbyggðarsjónarmiðum þeirra sem eiga aðila í þessum nefndum. Ekki væri verra að stofnunum væru gefnar frjálsar hendur með að útvega sértekjur þess utan ef þær geta það. Eðlilegast væri að stofnanir yrðu gerðar að sjálfseignarstofnunum, svokölluðum non profit fyrirtækjum.
Skoðum nú aðstæðurnar á Suðurnesjum m.t.t. til fjárframlags. Greiðsla til stofnunarinnar er áætluð á einhverjum allt öðrum forsendum en raunskyldum hennar til almennings. Vissulega hefur hún fengið aukafjárveitingar hér og þar en allir vita að fyrirtæki sem rekið er með halla, sekkur í vexti og dráttarvexti sem gleypa litlu gusurnar sem yfirvöldum þóknast að fleygja til. Aldrei er gefið rétt í upphafi þannig að stofnunin geti notið hagræðis vaxtalega séð.
Suðurnesjasvæðið hefur þann vafasama heiður að vera svæðið þar sem ungir öryrkjar, ungar einstæðar mæður, lágur tekjuhópur og atvinnuleysi er hlutfallslega hæst á landsvísu . Ef fram fer sem horfir munu þessir íbúar nú þurfa að þjóta með gamalmenni sín og veik börn, á kvöldin og um helgar, klukkustundar ferð til Höfuðborgarinnar til að fá þjónustu. Þrátt fyrir að í þessum hópi eiga mjög margir ekki bíl, ekki peninga fyrir bensíni og þrátt fyrir að engar rútuferðir eru á þessum tíma. Ef þetta er á tíma sem rútan gengur kostar önnur leiðin kr. 1600 á mann til Reykjavíkur. Gaman væri að sjá svipinn á íbúum höfuðborgarsvæðisins ef þeim yrði gert að lúta sömu afarkostum og sækja þjónustuna til Suðurnesja. Þetta þýðir að félagsstofnanir Reykjanesbæjar munu þurfa að leggja enn frekari hönd á plóginn og styrkja þessa sjúklinga.
Það sem einnig mun gerast er að þeir sem þurfa reglulega að sækja sérhæfða þjónustu sem nú er á svæðinu þurfa þess í stað að leita til höfuðborgarsvæðisins. Fjölskyldumeðlimir jafnt sem sjúklingar munu þá þurfa að fá frí frá vinnu klukkustundum saman, atvinnuveitendur að veita frí og þannig tapa allir. Hvað kostar þetta? Svar: kostar ríkið ekkert en íbúa og bæjarfélög miklar upphæðir.
Meðferðina þarf Ríkið áfram að greiða, en nú til Landspítalans eða annarra aðila svo ekki hagnast yfirvöld á því, en íbúarnir tapa grimmt sem og bæjarfélögin enda mun þetta verða alvarleg hindrun gegn búsetu á þessu svæði. Starfsfólk stofnuninnar mun flýja lélegra starfsumhverfi og töluverða tekjulækkun og Suðurnesin enn á ný verða fyrir miklum búsifjum utanaðfrá.
Það rennur að manni sá illi grunur að kannski hafi ráðgjafar Heilbrigðisráðherra einmitt viljað hindra frekari flutning á þessar slóðir til þess að fylla upp tómt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og tryggja auknar tekjur til Landspítala. Nema þetta sé hrein aðför til þess að refsa íbúum fyrir að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í meirihluta ár eftir ár? Ef einhver skildi ekki hafa tekið eftir því er bullandi valdabarátta í gangi bak við tjöldin þar sem hagsmunaaðilar berjast um hverja krónu í kjölfar hrunsins og í því valdatómi sem þá myndaðist.
Suðurnesjamenn, þetta má ekki gerast og við verðum að standa saman og mótmæla þessu alvarlega!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.